Ári seinna

Fyrir ekki margt svo löngu ætlaði ég heldur betur að fara að taka mig à í skrifunum. Og meinti það virkilega.

Það var fyrir àri síðan!

Categories: | Ein athugasemd

Til hamingju

Til hamingju kæra Jóhanna, okkar háttvirti forsætisráðherra, með 217,000 krónu launahækkunina!

Og eins þið allir hinir þingmennirnir, innilegar hamingjuóskir með tugi prósenta hækkunina!

Gott til þess að vita að 63 heimili í landinu falla undir skjaldborgina!

Til hamingju hræsnin ykkar!

Categories: | Ein athugasemd

Landið í skítnum

Við Íslendingar höfum lengi verið talin stolt þjóð.  Stolt yfir fallega landinu okkar, stolt yfir málinu, stolt af upprunanum, stolt yfir gengi okkar í íþróttum af því að við erum svo smá, stolt yfir fallegu kvenkyni þjóðarinnar, stolt yfir langlífi okkar, og svo má lengi áfram telja.  Og hvarvetna sem ég var stödd á jarðarkringlunni, og var innt eftir hvaðan ég væri, þá svaraði ég alltaf með hátt reist höfuð og stolt í röddinni, „ég er frá ÍSLANDI„.  Og þeir sem ekki vissu hvar Ísland var þóttu mér bjánar og fávissumenn, því á okkar góða Íslandi, var saga og landafræði annarra landa kennd í skólum.

Ég veit ekki hvernig ráðamenn þjóðarinnar geta farið svona illa með samlanda sína og verið stoltir af!  Þeir hljóta eiginlega að vera stoltir af verkum sínum, því þeir eru jú enn við stjórn landsins.  Fólk er að missa heimili sín, vinnuna, á varla ofan í sig að éta, og þeir verstu eru í greiðslustöðnun svo þeir geti, við illan leik þó, haldið lífi í fjölskyldu sinni.   Margar fjölskyldur hafa splundrast vegna ástandsins, meðal annars vegna þess að fólk flýr ástandið og flyst búferlum, hjónaskilnaðir og það allra sorglegasta, sjálfsmorð.
Ég veit ekki hvernig þetta fer þegar kemur að því að fólk með greiðslustöðnun þarf að fara að borga aftur af lánum sínum.
Erum við virkilega að fara að sökkva enn dýpra ofan í svartholið?

Hér virðist vera lenska að ef ein verslun hækkar verð hjá sér, þá fylgja hinar fast á eftir.  Ef bensín líterinn hækkar um margar krónur hjá Olís, þá hækka allar hinar bensínstöðvarnar um nákvæmlega sömu krónutölu!  Það er nefnilega alls ekkert samráð á Íslandi!
Þessu er nefnilega alveg öfugt farið erlendis, því þar er verið að keppast um kúnnana.  Margar verslanir lækka verð sín svo um munar, þannig að ef aðrar verslanir vilja vera með, þá verða þær að lækka verðið.  Mjög simpelt.  Og samheldni kúnnana í öðrum löndum er alger, þar eru verslanir bara sniðgengnar eða viðkomandi vara sem hækkuð var.  Hér tuða allir yfir sorglegum fréttaflutningnum um að nú sé enn annar skatturinn lagður á okkur, og enn hækkar kjötið og enn hækkar bensínið og enn er verið að mergsjúga okkur, þó enginn sé eftir mergurinn!  Samt skulum við næsta dag stökkva upp í bíl, fylla hann af bensíni, keyra í búðina, kaupa kjöt og vínber, og greiða hendur og fætur fyrir!  Samstaðan er engin í þessu landi!
Reyndar er kannski erfitt að miða Ísland við önnur lönd vegna þessa, því öll verslun á landinu er bara í höndum örfárra aðila því þeir eru í því að kaupa hvorn annan og/eða að sameinast.   Og við verðum jú að lifa.

Iðnaðarsaltið er nú annað dæmi um hversu lágt má leggjast.  Þar var þögnin alger í mörg ár þó vitað væri að það er ekki ætlað til manneldis.  Samt erum við búin að setja ofan í okkur allan fjandann með saltið fína í öll þessi ár.

Ég er ekki svo viss lengur hvort ég geti talið mig stoltan Íslending og ég held að ef ég yrði spurð í dag úti í heimi hvaðan ég væri, þá myndi risið ekki vera svo hátt og röddin bæri lítið stolt.  Sjálfsagt er það iðnaðarsaltið með öllu sínu krónísku aukaverkunum sem gera okkur Íslendinga að þeim mönnum sem við erum í dag.

Það er skítafýla í þessu landi og ég finn fnykinn af henni daglega.

Categories: | 18 athugasemdir

Dottin í það

Kerfið, það er að segja 😉
Nú er mér sumsé óhætt að taka niður hjálminn, detta í ósaltaðri og ósandaðri hálkunni og mölbrjóta grýlukertið framan á andlitinu á mér!  Ég er nefnilega komin inn.  Inn í kerfið okkar góða sem er svo sanngjarnt og fer svo vel með okkur.  Það tók ekki nema 6 mánuði að detta inn og fá „alla“ þá aðstoð sem ég á rétt á.
Ég hef borgað í kerfið „okkar“ í 17 ár, flutti af landi brott í 6 ár,  kem heim (þvert á alla hina Íslendingafarana sem fluttir eru í burtu) og á engan rétt!  Kannski, ef ég hefði látið græða í mig PIP púða undir borðið, þá hefði ég líklega verið „golden“.

En ég er innundir og iðnaðarpúðalaus!

Categories: | 2 athugasemdir

Ástin…

…já sem og væntumþykjan, kemur í mörgum myndum.  Við tölum oft um að við elskum kók, elskum gemsann okkar, eða elskum húsið sem við búum í.  Oftar en ekki eiga þessir hlutir ekkert sameiginlegt með orðinu ást.  Sama finnst mér um enska orðið „adopt“ eða ættleiðing.
Ameríkanar nota það orð óspart og við hin ýmsu tækifæri.  Þegar maður keyrir um þjóðvegi landsins eða fylkjanna sér maður oft vegaskilti þar sem á stendur „adopt a highway“ eða ættleiðum þjóðveginn og er meiningin þá að við eigum ekki að henda eða skilja eftir rusl á eða við þjóðveginn!
Kaninn auglýsir óspart „adopt a pet“ eða ættleiðum gæludýr, en þá eiga þeir við dýr sem eru þá í umsjón ríkisins á hinum ýmsu stöðum þar sem fyrri eigendur hafa skilið þau eftir, og/eða að ættleiða dýrin frá þessum stöðum frekar en hjá ræktendum, því oft lifa þau aumingjans dýr við hrikalegar aðstæður allt sitt líf.

Ég hef heyrt frá fleiri en einum og fleiri en tveimur ættleiddum, sem nú eru fullorðinir einstaklingar, og þykir þeim þessi notkun á orðinu „adopt/ættleiðing“ frekar sorgleg.  Þessum einstaklingum finnst ekki rétt að ættleiddir einstaklingar séu settir í sama flokk og dýr! svo ég tali nú ekki um þjóðveg!
Þetta er mikið tilfinningarmál hjá þeim og ekki laust við að þeim finnast þau vera eins og illa gerður hlutur sem fyrrverandi „eigendur“ vildu losa sig við!

Á meðan ég var ólétt, heyrði ég oftar en einu sinni hvort mig langaði ekki að eiga barn sjálf, svo ég myndi kynnast því hvernig það er að eignast eigið barn!  Hvort ég væri ekki kvíðin fyrir að eiga barnið, því ég myndi líklega elska það barn meira en Ármann, af því að það barn yrði mitt eigið!  Hvort væri ekki gaman að eiga loksins mitt eigið barn!

Í ALVÖRU FÓLK!!!

Ég veit svo sem ekki hverning ég átti að svara þessu, því svona vitleysu er varla vert að svara.  Ég veit svosem vel að fólk spyr ekki þessara spurninga eða kemur með svona yfirlýsingar af illhug, heldur fáfræði. En samt, ef þau bara vissu hve þessar fáfræðilegu spurningar ristu djúpt og særðu í leiðinni!

Ég var spurð af því nú fyrir um 2 mánuðum hvort ég bæri öðruvísi tilfinningar til Ármanns heldur en Alönnuh!  og viðkomandi horfði beint í augun á mér og blikkaði ekki einu sinni!  Mér var orða vant, en spurði þó, því ég vissi að hann ætti börn, hvort hann elskaði annað barna sinna meira en hitt!  og eins og hann, starði ég í augu hans án þess að blikka og beið eftir svari.  Það var fátt um þau.

Það eina sem ég hræddist á meðgöngunni var hvort ég ætti til næga ást til að deila á annað barn, því ást mín á  litla stráknum mínum er svo mikil að ég var ekki viss um að hægt væri að elska annað barn jafn mikið!  En að sjálfsögðu fæðist sú ást bara með barninu um leið og það kemur.

Og fyrir þá sem vilja vita, þá er tilfinningin nákvæmlega sú sama þegar maður fær barnið sitt í hendur, hvort heldur maður fæðir sjálfur eður ei!  og ef þið hafið einhverjar spurningar, áhuga eða efasemdir, þá er ykkur velkomið að banka uppá, setjast niður með mér og fræðast.
 

Categories: | 17 athugasemdir

Bloggaðu hjá WordPress.com.

%d bloggurum líkar þetta: